Áskorun til Vigdísar Hauksdóttur

Við undirrituð skorum á Vigdísi Hauksdóttur að segja af sér formennsku í Fjárlaganefnd Alþingis sem og Hagræðingarhópi Ríkisstjórnarinnar vegna þeirra ummæla sem hún hefur látið falla um Ríkisútvarpið ohf og sérstaklega fréttastofu RÚV. Þar tengir Vigdís Hauksdóttir saman pólitík og fjárveitingar Alþingis og lætur í veðri vaka að beygi RÚV sig ekki undir stefnu ríkjandi stjórnvalda verði fjárveiting stofnunarinnar skert.

Er þá bent sérstaklega ummælin „Ég er náttúrulega í þessum hagræðingarhópi“ sem Vigdís viðhafði í tengslum við frétt um sig, sem hún var ósátt við og Fréttastofa hafði leiðrétt, aðspurð hvort hún myndi hafast eitthvað frekar að í því máli. Í framhaldi sagði Vigdís, „Mér finnst óeðlilega mikið fjármagn fara í rekstur RÚV. Sérstaklega þegar þeir eru ekki að standa sig betur í fréttaflutningi.“

Skvt. könnun MMR frá desember s.l. bera 75,3% þjóðarinnar frekar/mjög mikið traust til Fréttastofu RÚV en einungis 8,2% frekar/mjög lítið og ber þar fréttastofa RÚV höfuð og herðar yfir aðra miðla að þessu leyti. Ótækt er að viðhorf minnihluta þjóðarinnar sem telja Fréttastofuna draga hlut ákveðinna málefna verði til þvingunaraðgerða af þessu tagi, og krefjast undirritaðir að sjálfstæði stofnunarinnar verði virt.