Athugasemd vegna ráðningar í starf organista við Langholtskirkju

Við undirrituð lýsum yfir þungum áhyggjum vegna nýlegrar ráðningar í starf organista við Langholtskirkju í Reykjavík. Ekki var horft til menntaðra organista og kirkjutónlistarmanna heldur hreinlega gengið fram hjá hæfum umsækjendum með menntun á borð við kantorspróf frá Tónskóla þjóðkirkjunnar, framhaldnám í kirkjutónlist frá erlendum tónlistarháskólum, sem og margra ára reynslu hérlendis og erlendis. Sú skýring var m.a. gefin að ekki væri verið að leita eftir „konsertorganista“ og jafnframt vísað til þess að „organisti“ sé ekki lögverndað starfsheiti.

Í auglýsingu Langholtssóknar um starf organista http://langholtskirkja.is/starf-organista-i-langholtssokn-laust-til-umsoknar/ stendur þó „Gerð er krafa um að umsækjandi hafi kantorspróf frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar eða sambærilega menntun“. Valnefnd skipuð prestum kirkjunnar ásamt fulltrúum sóknarnefndar, Kórskóla og Listafélags mat það svo að mastersgráða í píanóleik væri sambærileg við kantorspróf og hefur þar með að engu margra ára sérhæft nám í kirkjutónlist og orgelleik. Meðal undirstöðufaga til kantorsprófs má nefna orgelleik, litúrgískt orgelspil, kirkjufræði, kirkjusöngfræði, orgelfræði og sálma- og helgisiðafræði, auk „almennra“ faga á borð við píanóleik, söng og kórstjórn. Í erindisbréfi er einmitt tekið fram að meðal verkefna organistans sé að annast orgelleik og kórstjórn við helgihald sem eru þeir þættir sem vega hvað þyngst í námi organista. Nokkur þversögn felst í því að tekið var loforð af þeim umsækjanda sem varð fyrir valinu um að ljúka kantorsprófi innan fjögurra ára.

Ekki er hægt að segja annað en að lítið sé gert úr mikilvægi faglegrar þekkingar og þeirri sérhæfingu sem felst í starfi kirkjuorganista – og það í einu helsta vígi kirkjutónlistar á höfuðborgarsvæðinu sem hafði einn best menntaða og reynslumesta kirkjuorganista landsins í þjónustu sinni í 51 ár. Við skorum hér með á sóknarnefnd Langholtskirkju og kirkjuna í heild að standa vörð um fagmennsku í kirkjutónlist á grundvelli tónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar og láta fagleg sjónarmið ráða ferðinni við val á organistum, rétt eins og við ráðningu annarra þjóna kirkjunnar.


Lára Bryndís Eggertsdóttir    Contact the author of the petition