Stuðningur við frumvarp Alþingis um lengingu fæðingarorlofs

Frumvarp um lengingu fæðingarorlofs hefur verið lagt fyrir Alþingi og var rætt í fyrstu umræðu á þingi þann 2.febrúar. Samkvæmt því myndi fæðingarorlof fara í tólf mánuði í tveimur þrepum á árunum 2018 og 2019. 

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að vinna þurfi markvisst að því að tryggja börnum leikskóla- eða dagvist þegar fæðingarorlofi sleppir, með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga. Ekki kemur fram með hvaða hætti þetta á að gera, né hvort stjórnvöld vilji þá að slík vistun yrði í boði frá níu mánaða aldri.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ætlar að leggja fram frumvarp um hækkun á fæðingarorlofsgreiðslum á þessu þingi. Hann hefur sagt að það sé forgangsmál að hækka greiðslurnar, en ekki lengja orlofið. 

Lengra fæðingarorlof er mikilvægt velferðamál fjölskyldna. All margar barnafjölskyldur, afar og ömmur, frænkur og frændur, langafar og ömmur, vinir og aðrir vandamenn, þekkja vel til tímabilsins sem þarf að brúa frá því að fæðingarorlof lýkur og leikskóli- eða dagvist tekur við. Það er ekki boðlegt fyrir barnafjölskyldur, vini og vandamenn né atvinnurekendur að sá óvissutími getur verið frá því að fæðingarorlofi lýkur um 9 mánaða aldur barnsins þar til það er hér um bil 2,5 árs (eftir því hvenær það er fætt á árinu).

Við undirrituð lýsum hér með yfir stuðningi þess að lengja fæðingarorlof í 1 ár enda er það sem markviss aðgerð í þeirri góðu stefnu stjórnvalda að tryggja börnum leikskóla- eða dagvist þegar fæðingarorlofi lýkur. 

Við skorum á Þorstein Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, að styðja og stuðla að þeirri breytingu.

 

 

 


Ninja Ómarsdóttir    Contact the author of the petition